Rannsóknarverkefni

Rannsóknir eru það sem greinir háskóla frá öðrum fræðslustofnunum og viðamiklar og vandaðar rannsóknir eru keppikefli metnaðarfullra háskóla, háskólakennara og stúdenta. Innan Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar fer fram fjölbreytt fræða- og rannsóknastarf. Afrakstur þessara rannsókna birtist árlega í bókum, greinum og ritgerðum. Upplýsingar um birt rit kennara má fá á starfsmannasíðum þeirra en prófritgerðir nemenda eru varðveittar í Skemmunni.

Rannsóknir á sviði hugvísinda hafa lengstum verið einyrkjastarf – fræðimaðurinn hefur glímt við rannsóknir sínar einn og óstuddur. Á seinustu árum hefur þó samstarfsverkefnum á sviði hugvísinda farið ört fjölgandi. Þau verkefni eru þá oft unnin í tengslum við einhverja af þeim rannsóknastofnunum sem starfa innan Háskólans. Rannsóknastofnanir tengdar Guðfræði- og trúarbragðafræðideild eru:

  • Guðfræðistofnun.
  • Trúarbragðafræðistofa.

Rannsóknarverkefni á vegum Guðfræðistofnunar:

2022-2025: 

Mannréttindi, fjölmenning og trú á tímum loftslagsbreytinga (MaFTíL)

Mannréttindi , fjölmenning og trú á tímum loftslagsbreytinga er þverfaglegt rannsóknarverkefni. Tilgangur MaFTíL er að stuðla að fjölþættu framlagi hug- og félagsvísinda í umræðunni um þau fjölmörgu og brýnu úrlausnarefni sem blasa við mannkyni  á tímum hamfarahlýnunar og margvíslegra ógnana í kjölfar hennar. Verkefnið hefur beina skírskotun til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og áherslu þeirra á sjálfbæra þróun. Þá skírskotar verkefnið einnig til megináherslna stefnu Háskóla Íslands 2021-2026 þar sem áhersla er lögð á sjálfbærni, mannréttindi og fjölbreytileika. Nánar um verkefnið.

2017:

Siðaskipti í sögu og samtíð. Þverfaglegt rannsóknarverkefni 

Árið 2017 var þess minnst að 500 ár verða liðin frá upphafi lúthersku siðaskiptanna. Í tilefni af þessum tímamótum stofnaði Guðfræðistofnun HÍ þverfaglegt rannsóknarverkefni um áhrif siðaskiptanna á kirkju, samfélag og menningu í 500 ár. Verkefninu lauk 2017. Heimasíða verkefnisins.