Mannréttindi, fjölmenning og trú á tímum loftslagsbreytinga (MaFTíL)

Image
Vatnsmýri

Mannréttindi, fjölmenning og trú á tímum loftslagsbreytinga (MaFTíL)

Markmið:

Mannréttindi , fjölmenning og trú á tímum loftslagsbreytinga er þverfaglegt rannsóknarverkefni. Tilgangur MaFTíL er að stuðla að fjölþættu framlagi hug- og félagsvísinda í umræðunni um þau fjölmörgu og brýnu úrlausnarefni sem blasa við mannkyni  á tímum hamfarahlýnunar og margvíslegra ógnana í kjölfar hennar. Verkefnið hefur beina skírskotun til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og áherslu þeirra á sjálfbæra þróun. Þá skírskotar verkefnið einnig til megináherslna stefnu Háskóla Íslands 2021-2026 þar sem áhersla er lögð á sjálfbærni, mannréttindi og fjölbreytileika. 

Um verkefnið:

Fyrstu áratugir 21. aldarinnar einkennast af hröðum loftslagsbreytingum. Á sama tíma hafa fólksflutningar aukist og ýmiss konar glímur varðandi fjölmenningu og mannréttindi haldast í hendur við loftslagsmálin. Í þessu verkefni koma saman fræðimenn frá ólíkum fræðasviðum til að rannsaka þessar aðstæður frá ýmsum sjónarhólum, kenningum og aðferðum. 

Spurningar sem verkefnið tekst á við eru m.a. þessar: Hvernig hafa loftslagsbreytingar af mannavöldum áhrif á mannréttindi, trú og fjölmenningu?  Að hvaða leyti þarf að leita samþættra lausna á þeim risavöxnu vandamálum sem mannkynið stendur frammi fyrir?  Hvert er trúarlegt samhengi fjölmenningar? Hver er þáttur kristinnar trúar í myndun og mótun hatursorðræðu í garð tiltekinna hópa samfélagsins? Er kristindómurinn rót slíkrar orðræðu og eldsneyti eða geymir hann ef til vill verkfæri sem nýta má gegn henni? Hvað um önnur trúarbrögð? Hvernig kallast sjálfbær þróun á við kenningar í loftslagsmálum og hvers konar trúarleg víddir finnast á þessum veruleika?  Hvernig geta kynjagleraugu hjálpað til að skilgreina loftslagsvandann og finna á honum lausnir? Hver er reynsla og upplifun fólks á tímum fjölmenningar og loftslagsbreytinga og að hvaða leyti finnast trúarlegir fletir á þeirri tilvistarglímu? Hvaða áhrif hafa sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna á guðfræðiiðkun og trúarbragðarannsóknir? Hvernig móta nýjar efnahagslegar, vistfræðilegar og samfélagslegar aðstæður á norðurslóðum trúarlegar sjálfsmyndir fólks við ysta haf?

Um rannsóknarstofuna:

Guðfræðistofnun er rannsóknarstofa staðsett innan Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar Háskóla Íslands. Með rannsóknarverkefninu leitast Guðfræðistofnun við að endurspegla áskoranir líðandi stundar.

Tímalengd verkefnis:

Guðfræðistofnun hleypti verkefninu af stokkunum vorið 2020. Vegna heimsfaraldursins hefur verkefnið staðið í stað, en var endurvakið haustið 2022.

Upphaf: 19. febrúar 2020 (frestað vegna Covid), endurvakið 17. október 2022.

Lok verkefnis: 17. október 2025.

Fjármögnun:

Verkefnið er styrkt úr Starfssjóði Guðfræðistofnunar Háskóla Íslands. Starfssjóður Guðfræðistofnunar Háskóla Íslands var stofnaður af Elli- og hjúkrunarheimilinu Grund með gjafabréfi 28. desember 1982 í tilefni af 60 ára afmæli heimilisins. Sjóðurinn er til minningar um stofnendur þess, Sigurbjörn Á. Gíslason, cand. theol., Flosa Sigurðsson trésmíðameistara, Harald Sigurðsson verslunarmann, Júlíus Árnason kaupmann og Pál Jónsson verslunarstjóra; enn fremur þá séra Halldór Jónsson, prófast á Hofi í Vopnafirði, séra Lárus Halldórsson fríkirkjuprest og séra Pál Þórðarson, prest í Njarðvík.

Tilgangur sjóðsins er að stuðla að hvers konar starfsemi Guðfræðistofnunar Háskóla Íslands. Auk þess má nefna fyrirlestrahald og námsstefnur, heimboð erlendra gesta og greiðslu ferðapeninga til kennara Guðfræðideildar og hvaðeina sem verða má að gagni fyrir starfsemi stofnunarinnar á hverjum tíma. Samkvæmt skipulagi Háskóla Íslands frá því í febrúar 2008 er Guðfræðideild ekki lengur til en deildin heitir nú Guðfræði- og trúarbragðafræðideild og heyrir undir Hugvísindasvið. Nánar á hi.is.

Image

Þátttakendur:

  • Ahn Dao Katrín Tran, rannsóknarsérfræðingur hjá Menntavísindastofnun HÍ.
  • Arnfríður Guðmundsdóttir, prófessor við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild HÍ.
  • Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar HÍ.
  • Guðrún Ingólfsdóttir, gestafræðimaður hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
  • Hanna Ragnarsdóttir, prófessor við Menntavísindasvið HÍ.
  • Helga Ögmundardóttir, dósent við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild HÍ.
  • Hjalti Hugason, emeritus við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild HÍ.
  • Rúnar Már Þorsteinsson, prófessor við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild HÍ.
  • Sigríður Guðmarsdóttir, dósent við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild HÍ og forstöðumaður Guðfræðistofnunar HÍ.
  • Sólveig Anna Bóasdóttir, prófessor, Guðfræði- og trúarbragðafræðideild HÍ.
  • Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir, sjálfstætt starfandi fræðimaður og stundakennari við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild HÍ.
  • Svala Guðmundsdóttir, prófessor við Viðskiptafræðideild HÍ.

Rafrænt efni:

Upptaka frá Hugvísindaþingi 2020.

Málstofur Guðfræðistofnanir framundan sem tengjast verkefninu: Sjá á fréttasíðu Guðfræðistofnunar.

Annað efni sem tengist verkefninu:

Ritið 2/2023: Gestaritstjórar Sigríður Guðmarsdóttir og Sólveig Anna Bóasdóttir

Greinakall: Kynjahugmyndir, menning og trúarbrögð

Hugvísindi rannsaka menningu, sögu, sjálfsmyndir og samfélög sem mótuð eru af flóknum kynjakerfum. Trúarmenning og trúarhefðir eru hluti af menningarlandslaginu og byggja þannig á kerfislægum kynjagrundvelli sem þörf er á að greina, meta og nýta við kenningasmíð og aðra þekkingaröflun. Greinakallið leitar sérstaklega eftir greinum með þessum þemum:

  • Trúartextar og hinn kynjaði líkami
  • Heilagt og hinsegin
  • Trúarlegar sjálfsmyndir og mannréttindi
  • Snerting, skynjun og erótík í andlegum bókmenntum
  • Kirkja, kristni og kvenréttindi
  • Kynjuð hatursorðræða í trúarlegu samhengi
  • Loftslagsbreytingar, kyn og guðfræði
  • Kyn- og kynhlutleysi í sálmum og helgisiðum 21. aldar

Greinakallið leitar einnig eftir öðrum þverfræðilegum greinum á mærum kynjafræði, guðfræði, trúarbragðafræði og öðrum hug- og félagsvísindum sem tengjast trúarlegri menningu.