Header Paragraph

Varði doktorsritgerð um vistkerfisvanda og fátækt

Image

Bjarni Karlsson hefur varið doktorsritgerð í guðfræði við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Ritgerðin nefnist Vistkerfisvandi og fátækt. Einkenni lífvænlegrar heimsmyndar, mannskilnings og fátæktarhugtaks í fjölmenningarsamfélagi eftirnútímans.

Andmælendur við vörnina voru dr. Jón Ásgeir Kalmansson, aðjunkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, og dr. Sigríður Guðmarsdóttir, dósent við VID vitenskaplige høgskole í Noregi. Doktorsritgerðin var unnin undir leiðsögn dr. Sólveigar Önnu Bóasdóttur, prófessors í guðfræðilegri siðfræði við Háskóla Íslands. Aðrir í doktorsnefnd voru dr. Kolbeinn Hólmar Stefánsson, sérfræðingur á Hagstofu Íslands, og dr. Ólafur Páll Jónsson, prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands. Rúnar Már Þorsteinsson, forseti Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar, stjórnaði athöfninni sem fór fram í Hátíðasal í Aðalbyggingu Háskóla Íslands föstudaginn 24. apríl síðastliðinn.

Þetta var fyrsta doktorsvörnin sem haldin er við Hugvísindasvið síðan samkomubanni var komið á. Vörnin var því ekki opin gestum en var í beinni útsendingu á netinu. Þá var annar andmælenda, Sigríður Guðmarsdóttir, ekki viðstaddur en tók þátt í vörninni í gegnum tölvu. Þrátt fyrir að vörnin hafi farið fram fyrir nær tómum sal fylgdist um 1.200 með henni á netinu.  

Um rannsóknina

Ritgerðin dregur fram og gagnrýnir ýmsa ágalla nútímalegrar hugsunar um fátækt, heiminn, og stöðu mannsins í honum. Borin er saman hnattræn orðræða veraldlegra og trúarlegra aðila og rök færð fyrir samskilningi um gildi þess að leggja niður eindahyggju og mannmiðlægni en taka upp tengslahyggju og lífmiðlægni í heimsmenningunni.

Með samanburði á völdum stefnuskjölum eru færð rök fyrir því að engin neikvæð spenna ríki í hnattrænni orðræðu milli veraldlegrar og kristinnar umfjöllunar um vistkerfisvanda og fátækt. Orðræða SÞ hefur snúist frá mannmiðlægni til lífmiðlægni á umliðnum fimmtíu árum. Höfundur heldur því fram að guðmiðlæg nálgun kristninnar geti falið í sér þá lífmiðlægu og hlúð að henni í menningunni, m.a. með því að líta á vistkerfið sem líkama Guðs.

Spurt er: Hver eru meginatriði í siðfræði þar sem fátækt er forðað og almannahagur er leiðarljós?

Tillögur að svari eru lagðar fram um leið og gildi hins lýðræðislega samtals er undirstrikað. Í stað einhliða áherslu á lög og reglur í meintu hlutlausu almannarými nútímasamfélagsins er mælt með lýðræðislegri og margþættri samræðu þar sem ólíkar hefðir og menningarheimar mætist og haldi hvert öðru ábyrgu í gagnkvæmri hlustun og virðingu.

Um doktorsefnið

Bjarni Karlsson lauk embættisprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands 1990 og meistaragráðu í guðfræðilegri siðfræði 2007 frá sama skóla. Hann starfaði sem sóknarprestur í Vestmannaeyjum og Laugarneskirkju í Reykjavík árin 1991- 2014 en rekur nú eigin sálgæslustofu í Reykjavík.

Hér er hægt að skoða myndir frá vörninni.

Image

Frá vinstri: Ólafur Páll Jónsson, Rúnar Már Þorsteinsson, Bjarni Karlsson, Guðmundur Hálfdanarson, Jón Ásgeir Kalmansson og Sólveig Anna Bóasdóttir.