Header Paragraph

Trúarbragðafræði á Menntakviku

Image
Menntakvika 2023

Tveir félagar í Guðfræðistofnun Háskóla Íslands og einn meistaranemi við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild (sem jafnframt er dósent við Menntavísindasvið) standa saman að málstofu á Menntakviku, ráðstefnu Menntavísindasviðs HÍ, sem nefnist „Lífsskoðanir, farsæld og menntun: „Stóru spurningarnar“ sem viðfangsefni í skólastarfi.“Málstofan fer fram í stofu H205 í húsnæði Menntavísindasviðs í Stakkahlíð, föstudaginn 29. september kl. 12:45-14:15.

Fyrirlesarar eru Haraldur Hreinsson, lektor við Hugvísindasvið og Menntavísindasvið, Auður Pálsdóttir, dósent við Menntavísindasvið og Sigríður Guðmarsdóttir, dósent við Hugvísindasvið. Erindin fjalla um lífsskoðanir, farsæld og menntun frá þremur ólíkum sjónarhornum:

Reynslan af tveimur námskeiðum um lífsskoðanir:  Lífsskoðanir og menntun og Ísland nútímans

Auður Pálsdóttir og Haraldur Hreinsson

Ágrip: Markmið erindisins er að draga saman upplýsingar um tilurð, tilgang og reynslu af tveimur nýlegum námskeiðum í samfélagsgreinavali í kennaranámi. Þetta er annars vegar Lífsskoðanir og menntun (5 ECTS) sem kennt var á vormisseri 2023 fyrir nemendur á fyrsta eða öðru námsári í grunnnámi. Hins vegar er það Ísland nútímans (10 ECTS) sem kennt var vorið 2022 og 2023 í framhaldsnámi. Helstu efnisþræðir og verkefni námskeiðanna verða kynnt stuttlega. Þá verður rætt hvernig námskeiðunum er ætlað að vera svar við samfélagslegum breytingum sem hafa átt sér stað á undanförnum árum og þau sett í samhengi við hæfniviðmið kennaranáms og hæfniviðmið í aðalnámskrá grunnskóla. Greining á reynslunni fram að þessu bendir til þess að styrkleikar kennaranemanna liggi í skýrum áhuga og vilja til að fást við lífsskoðanir með nemendum á faglegan hátt. Áskoranirnar í námskeiðunum hafa annars vegar snúist um skort á þekkingu á mismunandi lífsskoðunum og hins vegar takmörkuð þjálfun þátttakenda í greiningu á rökræðum og skoðanamyndun. Í lokin verður spurt hvaða skref eru vænleg í áframhaldandi þróun námskeiðanna, hvaða stuðning kennarar (kennaranemar) þurfa í vinnu með lífsskoðanir í skólastarfi og hvaða breytingar á aðalnámskrá gætu verið æskilegar.

Breytt landslag: Fræðilegt samhengi trúarbragða- og lífsskoðanafræðslu á Íslandi

Haraldur Hreinsson og Auður Pálsdóttir

Ágrip: Markmið erindisins er að varpa ljósi á samhengi trúarbragða- og lífsskoðanafræðslu á Íslandi. Í fyrsta hluta þess verður fjallað um trúarbragðafræðslu í núgildandi aðalnámskrá og það sem vitað er um kennslu um trúarbrögð í grunnskólum. Kynntar verða helstu breytingar á sviði trúarbragðafræðslu frá því núgildandi aðalnámskrá tók gildi á árunum 2011–2013. Þær snúa fyrst og fremst að aukinni áherslu á „trúarlegt læsi“ (e. religious literacy) annars vegar og „lífsskoðanir“ (e. worldview) eða „lífsskoðanafræðslu“ (e. worldview education) hins vegar. Kynnt verður tilkoma hugtaksins „lífsskoðun“ í vestrænni umræðu um trúarbragðafræðslu. Fjallað verður um áhrifamiklar útfærslur á lífsskoðunarhugtakinu innan menntavísinda og gagnrýni fræðafólks á notkun hugtaksins. Þessi áhersla verður sett í samhengi við samfélagslegar breytingar sem hafa átt sér stað í norðvestanverðri Evrópu á síðustu árum og áratugum. Þetta verður rætt annars vegar í

ljósi aukinnar fjölbreytni á hinu trúarlega sviði og minnkandi áhrif kristinna meirihlutakirkna og í samhengi áskorana á borð við hatursorðræðu og fordóma. Hins vegar hvernig trúarlegt læsi geti stuðlað að aukinni farsæld.

Kennsla um trúarbrögð og aðrar lífsskoðanir á Íslandi: Áskoranir framundan

Sigríður Guðmarsdóttir, Haraldur Hreinsson, Auður Pálsdóttir

Ágrip: Markmið erindisins er að draga saman helstu áskoranir sem kennarar er fjalla um trúarbrögð og lífsskoðanir á Íslandi munu líklega standa frammi fyrir á komandi árum. Slíkar áskoranir má greina í þrennt. Í fyrsta lagi breytingar sem orðið hafa á félagslegum veruleika fólks á Íslandi með hliðsjón af aðild að lífsskoðunarfélögum og tengslum ríkis og kirkju. Í öðru lagi skortur á íslenskum rannsóknum um lífsskoðanir landsmanna þar sem sjónum er beint annars vegar að þeim breytingum sem hafa orðið á allra síðustu árum á samsetningu landsmanna og lífsskoðunum þeirra. Hins vegar hvaða ályktanir má draga af þeim breytingum fyrir skólastarf. Í þriðja lagi eru áskoranir sem snúa að því hvort umræða um lífsskoðanir í hinu opinbera rými sé jaðarsett í íslensku samfélagi og þá hvers vegna. Mikilvægt er að huga að þessari spurningu vegna þess að slík jaðarsetning getur bæði stuðlað að fordómum gagnvart hópum sem aðhyllast tiltekin trúarbrögð eða lífsskoðanir eða gagnvart trúarbrögðum og lífsskoðunum almennt. Ofangreindar áskoranir verða ræddar í ljósi áherslu aðalnámskrár um að nemendur eigi í lok grunnskóla að geta fengist við og greint viðfangsefni sem snerta trú, lífsviðhorf og siðferði og spurningar um merkingu og tilgang lífsins.

Image
Menntakvika 2023

Sigríður Guðmarsdóttir, Auður Pálsdóttir og Haraldur Hreinsson.