Header Paragraph

Styrkur til þverfaglegs verkefnis um mannréttindi og loftslagsvá

Image

Veittur hefur verið styrkur úr Starfssjóði Guðfræðistofnunar Háskóla Íslands til þverfaglega verkefnisins Mannréttindi, fjölmenning og trú á tímum loftslagsbreytinga. Styrkupphæðin er 1.000.000 krónur.

Mannréttindi, fjölmenning og trú á tímum loftslagsbreytinga er heiti á þverfaglegu verkefni sem Guðfræðistofnun hleypti af stokkunum vorið 2020. Stofnunin er staðsett innan Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar Háskóla Íslands. Tilgangur verkefnisins er að efla framlag hug- og félagsvísinda til umræðunnar um þau fjölmörgu og brýnu úrlausnarefni sem blasa við mannkyni á tímum hamfarahlýnunar og margvíslegra ógnana í kjölfar hennar. Verkefnið skírskotar beint til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og áherslu þeirra á sjálfbæra þróun. Þá vísar verkefnið einnig til megináherslna nýrrar stefnu Háskóla Íslands (HÍ26) þar sem áhersla er lögð á sjálfbærni, mannréttindi og fjölbreytileika. Þannig leitast Guðfræðistofnun við að endurspegla áskoranir líðandi stundar og býður fjölbreyttum hópi háskólafólks að taka þátt í mikilvægu verkefni. Gert er ráð fyrir að verkefnið standi yfir í þrjú ár. Í stjórn verkefnisins sitja þær Sólveig Anna Bóasdóttir prófessor, Sigríður Guðmarsdóttir lektor og Guðbjörg Andrea Jónsdóttir, forstöðumaður Félagsvísindastofnunar.

Starfssjóður Guðfræðistofnunar Háskóla Íslands var stofnaður af Elli- og hjúkrunarheimilinu Grund með gjafabréfi 28. desember 1982 í tilefni af 60 ára afmæli heimilisins. Sjóðurinn er til minningar um stofnendur heimilisins, Sigurbjörn Á. Gíslason, cand. theol., Flosa Sigurðsson trésmíðameistara, Harald Sigurðsson verslunarmann, Júlíus Árnason kaupmann og Pál Jónsson verslunarstjóra; enn fremur þá séra Halldór Jónsson, prófast á Hofi í Vopnafirði, séra Lárus Halldórsson fríkirkjuprest og séra Pál Þórðarson, prest í Njarðvík.

Tilgangur sjóðsins er að stuðla að hvers konar starfsemi Guðfræðistofnunar Háskóla Íslands. Meðal viðfangsefna má nefna fyrirlestrahald og námstefnur, heimboð erlendra gesta, greiðslu ferðapeninga til kennara guðfræðideildar og hvaðeina sem verða má að gagni fyrir starfsemi stofnunarinnar á hverjum tíma. Samkvæmt skipulagi Háskóla Íslands frá febrúar 2008 er guðfræðideild ekki lengur til en deildin heitir nú Guðfræði- og trúarbragðafræðideild og heyrir undir Hugvísindasvið.

Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk. 

Image

Fulltrúar verkefnisins Mannréttindi, fjölmenning og trú á tímum loftslagsbreytinga ásamt fulltrúum í stjórn Starfssjóðs Guðfræðistofnunar og rektor við afhendingu styrksins í Hátíðasal fyrr í vikunni. Frá vinstri: Sigríður Guðmarsdóttir, Gubjörg Andrea Jónsdóttir, Hjalti Hugason, Sólveig Anna Bóasdóttir, Gunnlaugur A. Jónsson og Jón Atli Benediktsson. MYND/Kristinn Ingvarsson