Header Paragraph

Óvissa og áskoranir til umræðu í Ritröðinni

Image

Fyrirlestur Panti Filibus Musa, erkibiskups lúthersku kirkjunnar í Nígeríu og forseti Lútherska heimssambandsins, sem hann flutti í Neskirkju í fyrra er meðal efnis nýs heftis Ritraðar Guðfræðistofnunar Háskóla Íslands. Panti var einn af aðalfyrirlesurum á Hringborði norðurslóða (Arctic Circle) og ræddi þar um hlutverk kirkjunnar á tímum loftslagsbreytinga. Fyrirlesturinn sem birtur er í Ritröðinni fjallar um mikilvægi kirkjunnar sem boðbera friðar- og sáttargjörðar í stríðshrjáðum heimi. Yfirskrift fyrirlestursins er tekin úr 12. kafla Rómverjabréfsins, þar sem segir: „Lát ekki hið illa sigra þig en sigra þú illt með góðu“ (Róm 12.21).

Meðal annars efnis í þessu nýja hefti er grein Haraldar Hreinssonar, lektors við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild HÍ, sem skrifar um „Guðfræði- og trúarbragðafræðideild í breyttu samfélagi“, en hann telur stærstu áskorunina sem deildin standi frammi fyrir sé fækkun nemenda, sem hann tengir samfélagslegum breytingum á síðustu áratugum, ekki síst á hinu trúarlega sviði. Breytt staða „lúthersku meirihlutakirkjunnar“ hefur að mati Haraldar orsakað krísuástand innan íslensku þjóðkirkjunnar, en vegna sögulegra, menningarlegra og praktískra tengsla á milli Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar annars vegar og þjóðkirkjunnar hins vegar færir hann rök fyrir því „að krísur þessara tveggja stofnana tengist sterkum böndum og skarist“. Í lok greinarinnar kynnir Haraldur tillögur sínar um viðbrögð við þeim áskorunum sem deildin stendur frammi fyrir.

Í grein sem ber yfirskriftina „Kirkjuleg lýðræðishreyfing: Lútherskir fríkirkjusöfnuðir á Íslandi fyrir 1915“, og er fyrsta greinin af þremur um þetta efni, fjallar Hjalti Hugason, prófessor emeritus við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild, um þær breytingar sem urðu í kjölfar hins trúarlega félagafrelsis sem Íslendingar fengu með stjórnarskránni 1874 og þar til trúarlegt frelsi var aukið til muna með stjórnarskrárbreytingu árið 1915. Hjalti telur að þar með hafi lokið því sem hann kallar „fyrsta þróunarskeið trúfrelsis í landinu“. Á þessum tíma voru stofnuð trúfélög og kirkjudeildir sem störfuðu á öðrum grunni en hinum evangelísk-lútherska, en einnig níu lútherskir fríkirkjusöfnuðir sem störfuðu vítt og breitt um landið. Það er niðurstaða Hjalta að söfnuðirnir hafi starfað á svipuðum játningagrunni og þjóðkirkjan og fylgt í megindráttum fordæmi hennar í helgisiðum. Fólkið sem starfaði innan þessara safnaða hafi heldur ekki sýnt mikinn áhuga á því að víkja frá lútherskum hugmyndum og hefðum og heldur ekki fyrir að aðskilja ríki og kirkju. Miklu frekar hafi safnaðarmeðlimir haft áhuga á að öðlast meira svigrúm til að ráða málum sínum og því megi líta svo á að um „kirkjulega lýðræðishreyfingu“ hafi verið að ræða.

„Loftslagsvandi og loftslagsréttlæti: Til móts við loftslagsbreytta framtíð með óvissu í farteskinu!“ er heiti greinar Sólveigar Önnu Bóasdóttur, prófessors við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild. Eins og heitið gefur til kynna er viðfangsefnið sú framtíð sem hlýnandi loftslag kann að hafa í för með sér fyrir líf á jörðinni. Spurningarnar sem Sólveig Anna leitast við að svara í greini sinni fjalla m.a. um það hvort og þá hvernig sé hægt að tryggja að jörðin verði áfram öruggur íverustaður. Hún leggur áherslu á hversu „flókin og margræður loftslagsvandinn“ er og að ekki sé til nein ein rétt aðferð til að bregðast við honum. Eðlisvandans vegna dugi einföld skýringarlíkön og einföld svör ekki. Þvert á móti sér Sólveig Anna lausn í því sem hún kallar „siðfræði óöryggisins“, sem felst í því að við viðurkennum óvissuna og veitum hvert öðru nauðsynlegan stuðning í þessum aðstæðum í staðinn fyrir að boða „rökrétta vissu og skotheldar lausnir tafarlaust“. Hún endar greinina með eftirfarandi hvatningu: „Sættumst við lífið eins og það er, virðum náttúruna og höldum áfram á hraða margræðninnar.“

Í lok heftisins eru tveir ritdómar. Í þeim fyrri fjallar Margrét Eggertsdóttir, rannsóknarprófessor við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, um greinasafn sem kom út í Danmörku í tengslum við 500 ára afmæli siðbótarinnar þar sem kynntar eru niðurstöður rannsókna á dönskum siðbótarsálmum. Sólveig Anna Bóasdóttir prófessor skrifar í síðari ritdómnum um lokaverk femíníska umhverfisguðfræðingsins Sallie McFague en bókin kom út tveimur árum eftir lát hennar. Hér er á ferðinni merkilegt rit sem markar endalokin á einstökum ferli guðfræðings sem lagði meira en flestir aðrir til nýrrar guðfræðilegrar hugsunar og orðræðu í heimi sem tekst á við orsök og afleiðingar hnattrænnar hlýnunar. 

Ritröð Guðfræðistofnunar er gefin út í opnu aðgengi