Málstofa: Kirkjan í almannarými
Dr. Panti Filibus Musa, erkibiskup lúthersku kirkjunnar í Nígeríu (LCCN) og forseti Lútherska heimssambandsins heldur fyrirlestur á málstofu Guðfræðistofnunar Háskóla Íslands í Neskirkju þann 17. október frá 11:30-14:00. Málstofan fer fram á ensku, en hægt að koma með fyrirspurnir á íslensku.
Á málstofunni mun Musa fjalla um hlutverk kirkna í almannarýminu með sérstakri áherslu á lýðræði, ábyrgð, frið og sáttagjörð. Í erindi sínu fjallar hann um hvernig kirkjur víða um veröld geta látið til sín taka í hinu opinbera rými og unnið að lýðræðislegum endurbótum, félagslegri ábyrgð, friði og sáttargjörð á kristnum forsendum með Nígeríu sem sérstakt dæmi.
Guðfræðistofnun býður þátttakendum upp á endurgjaldslausan hádegisverð.
Dagskrá:
- 11:30-12:15 Matur
- 12:15-12:20 Kynning
- 12:20-13:00 Erindi Dr Panti Filibus Musa: „Church in a Public Space: Democracy, Responsibility, Peace and Reconciliation“
- 13:00-13:45 Umræður
- 13:45-14:00 Kaffi
Um Dr. Musa
Dr. Musa (f. 1960) lauk doktorsgráðu frá Luther Seminary, í Minnesota í Bandaríkjunum árið 1998. Hann starfaði í nokkur ár sem lektor við Bronnum guðfræðiskólanum í Yola í heimalandi sínu Nígeríu, en tók síðan við starfi sem Area Secretary fyrir Afríku í Lútherska heimssambandinu (LWF). Í því starfi kom hann sérstaklega að boðun og þróunarmálum og tók síðar við auknum stjórnunarskyldum í þeim málaflokki fyrir sambandið. Í hlutverki sínu sem Area Secretary hjá LWF kom Dr. Musa að útgáfu skýrslunnar Boðun í síbreytilegu samhengi: Að umbreyta, sætta og efla, sem gefin var út árið 2004 og þýdd var á íslensku tveimur árum síðar. Dr. Musa var kjörinn erkibiskup í Nígeríu árið 2016 og árið þar á eftir forseti LWF. Hann er kunnur fyrir andóf sitt gegn ofbeldi í Nígeríu, stuðning við fátækt fólk og fyrir kynjajafnrétti. Hann hefur einnig beitt sér fyrir samtali milli fulltrúa ólíkra trúarbragða.
Dr. Musa hefur talað gegn neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga í heimalandi sínu, meðal annars eyðimerkurmyndun. Hann hefur beitt sér af krafti gegn nútíma þrælahaldi, mansali, kúgun og óréttlæti gagnvart þeim sem standa höllum fæti í afrískum samfélögum og barist fyrir réttindum hirðingja.