Header Paragraph

Málstofa Guðfræðistofnunar: Játningabókmenntir Jóns Óskars

Image

Dr. Guðmundur S. Brynjólfsson flytur erindi í Málstofu Guðfræðistofnunar í Aðalbyggingu 229, miðvikudaginn 1. mars kl. 13:30-15:00. Erindið nefnist Játningabókmenntir Jóns Óskars. Hægt verður að fylgjast með málstofunni í streymi hér.

Útdráttur úr erindi:

Í játningum, játningahefðinni, fer fram einskonar leit að sjálfi eða innri kjarna. Sem dæmi má taka að Ágústínus finnur sig í trúnni á Jesú Krist. Því er eðlilegt að spurt sé hvað það er sem Jón Óskar leitar að og hvað það er sem hann finnur. Þetta var einn af mörgum þáttum sem lagt var upp með að svara þegar lagt var af stað í rannsókn á höfundarverki Jóns Óskars. En í raun er grundvöllurinn „leit“ alls ekki ljós í skrifum Jóns fyrr en stór hluti æviverks hans hefur skoðaður sem játningarit. Jón Óskar finnur eða staðfestir, að því er virðist, það sem hann vildi finna og staðfesta: að hann sem rithöfundur og boðberi menningarstrauma sé aldrei metinn að verðleikum. Leit hans og svör verða til þess að staðfesta einlæga skoðun hans, þá að hann sé ekki maklega viðurkenndur, og þessi niðurstaða mótar feril hans æ meir eftir því sem á líður. Þannig er leit Jóns tilgangsleit, líkt og segja má um leit Rousseaus í sínu stóra játningaverki, það fer fram sjálfsskoðun sem oft litast af hörmungahyggju og áhyggjum af sjálfsmynd og stöðu. Í þessum fyrirlestri verður greint frá helstu birtingarmyndum játningahefðarinnar í skrifum Jóns Óskars og þar lögð áhersla á tengsl játningaskrifa og eskatólógíu, m.a. í gegnum hikið eða biðina (sem ég tel að sé ríkjandi fagurfræðilegur þáttur í nánast öllum skrifum Jóns). Samfara biðinni er þjáning, biðin eða óvissan verður til í þjáningunni. Þannig er biðin kjarni eskatólógíunnar og kjarni í skrifum Jóns Óskars.

Um fyrirlesarann:

Guðmundur S. Brynjólfsson lauk BA-prófi í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands, MA-prófi í leiklistarfræðum frá Royal Holloway, University of London, djáknanámi frá Háskóla Íslands og tók vígslu sem djákni árið 2012 en lauk síðar MA-prófi í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands. Guðmundur er rithöfundur og leikskáld en fæst einnig við kennslu og ýmis sérfræðistörf. Guðmundur lauk doktorsprófi í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands 10. maí 2022 og byggir erindið á doktorsritgerð hans:  „Ég, sem þreyttur kem frá liðnum vetri“. Um margbrotna stöðu skáldsins og þýðandans Jóns Óskars í íslensku menningarumhverfi.“

Image