Header Paragraph

Jólahugvekja deildarforseta

Image
Álft

Jólahugvekja sem Sólveig Anna Bóasdóttir, forseti Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar Háskóla Íslands, flutti við jólasöng starfsfólks í kapellu skólans 16. desember 2022:

Mig langar að tala um frið. Tala fyrir tengslum friðar og réttlæti, friðsamlegum lausnum á sérhverjum, manngerðum vanda, stórum sem smáum. Hvetja til friðarstarfs í víðustu merkingu þess orðs, friðarviðræðna og gerð friðarsáttmála. Biðja fyrir friði í Úkraínu og um alla jörð.

Friður er mikilvægt biblíulegt hugtak. Draumsýn margra spámanna Gamla testamentisins snerist um frið, raunverulegan frið í landi þeirra. Ósk þeirra um „ævarandi friðarástand“, „eilífan frið“ og „endurreisn friðar“ lýsa örvæntingu stríðsþjáðs fólks og von um að skelfingar-ástandinu linni. Að valdsmenn snúi af braut hernaðar, stríðs og ofbeldis og hefji að „smíða plógjárn úr sverðunum og sniðla úr spjótum“.

Þannig er friður í skilningi spámanna Biblíunnar ekki andleg hugmynd heldur fyrst og fremst efnisleg og jarðnesk og snýst um lífið sem við lifum hér á þessari jörð. Það líf sem einkennist af friði einkennist jafnframt af jafnvægi, heilbrigði og velferð. Hebreska hugtakið Shalom felur í sér alla þessa þætti. Þá er ótalinn einn þáttur í viðbót, sem er réttlætið. Hans þáttur kemur vel fram í Davíðssálmum Gamla testamentisins eins og t.d. í 85. sálminum þar sem segir á þessa leið:

Lát oss, Drottinn, sjá miskunn þína og veit oss hjálpræði þitt. Ég vil hlýða á það sem Drottinn Guð talar. Hann talar frið til lýðs síns og til dýrkenda sinna og til þeirra er snúa hjarta sínu til hans. Hjálp hans er nálæg þeim er óttast hann svo að dýrð hans megi búa í landi voru. Elska og trúfesti mætast, réttlæti og friður kyssast. Trúfesti sprettur úr jörðinni og réttlæti horfir niður af himni. Þá gefur Drottinn gæði og landið afurðir. Réttlæti fer fyrir honum og friður fylgir skrefum hans. (v 8 – 14)

Á frumkristnum tíma var það algeng túlkun meðal þeirra sem tóku trú á Jesú að hann hefði með dauða sínum og upprisu sigrast endanlega á ofbeldi og ófriði heimsins. Þannig boðaði Jesús ekki aðeins frið heldur var hann friðurinn, í einhverri djúpspekilegri merkingu. Þekktar friðarformúlur má víða finna í Nýja testamentinu sem tengjast því að heilsast og kveðjast. Svo talað sé líkingamál, má segja að Jesús veiti friði Guðs yfir til lærisveinanna líkt og fljóti sem flæðir yfir bakka sína þegar þann segir: „Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður“. Friði Jesú má því líkja við aflvaka sem hinir kristnu eftirfylgjendur trúðu að væri þess umkominn að sigrast á endanlega á illskunni.

Öll kjósum við frið og viljum lifa í kærleika og sátt við annað fólk. Þannig er það fremur ólíklegt að fólk telji sig þurfa nokkurn sérstakan rökstuðning, trúarlegan eða veraldlegan, til að samsinna þeirri skoðun að friður sé eftirsóknarvert ástand í sérhverju samfélagi.

Samtímis er það staðreynd að okkur berast svo til engar fréttir af virkum friðarumleitunum í tengslum við það stríð sem nú geisar í Evrópu. Aðalritari NATO, Jens Stoltenberg, lét hafa það eftir sér nýlega að það væru engar forsendur fyrir friði í Úkraínu á þessum tímapunkti en mikilvægt væri að halda áfram að senda þangað vopn. Hann bætti því svo við að öll stríð enduðu að lokum og það myndi líka gerast í  þessu tilviki.

Ég ætla ekki að lýsa undrun minni yfir þessum orðum aðalritara NATO. Friðarviðræður og friðarumleitanir eiga sér langa sögu. Þar þarf ekkert að finna upp. Ég lýsi eftir þeirri öflugu friðarhreyfingu sem lengi hefur verið til staðar í Evrópu, og mun víðar, hreyfingu sem byggist jafnt á trúarlegum og veraldlegum grunni. Hvernig stendur á því að við heyrum fyrst og fremst frá boðberum hernaðarhyggjunnar?  Hvar er friðarhreyfingin?

Ég trúi því að hún sé til og einhvers staðar virk en að við heyrum bara lítið um það. Alkirkjuráðið sem er jafngamalt Sameinuðu þjóðunum (1948) hefur nýlega fordæmt aldalanga hefð vestrænnar kristni sem réttlætti stríð undir vissum skilyrðum uppfylltum. Þeim langa kafla er lokið. Nú um stundir vinna kristnar friðarhreyfingar einvörðungu að því sem skapa réttlátan frið sem er hugtak byggt á biblíulegum grunni líkt og þeim sem ég nefndi í upphafi. Friður og réttlæti kyssast.

Hvort sem við sækjum hvatningu til að sigrast á ófriði í táknrænar frásagnir Biblíunnar, í söguna og reynsluna eða í hreina skynsemi, þá er niðurstaðan sú sama: Við verðum að gagnrýna hernaðarhyggju og tala fyrir friði. Ekki bíða eftir betri tímasetningu. Það er alltaf réttur tími fyrir frið.  Okkur ber siðferðileg skylda til að standa vörð um lífið, friðinn og réttlætið en þannig stöndum við jafnframt vörð um mannhelgi þeirra sem þjást mest vegna ófriðarins og stuðlum að réttlátum tengslum milli þjóða.

Mig langar að enda á orðum sem finna má í sálmi eftir Kristján Val Ingólfsson í nýrri sálmabók kirkjunnar:

Þér friður af jörðu fylgi nú og friðurinn himni frá.
Og lækjanna friður sé með þér og friður um höfin blá.
Djúp kyrrð komi yfir þig. Guðs frið gefi Drottinn þér. (296)

Gleðileg jól. Gleðileg friðarjól!

Image
Álft

Mynd: Rúnar Már Þorsteinsson.