Innsigli íslenskra og norskra miðaldabiskupa
Guðrún Harðardóttir, starfsmaður Árnastofnunar, flytur opinn fyrirlestur á vegum Guðfræðistofnunar Háskóla Íslands sem nefnist „Innsigli íslenskra og norskra miðaldabiskupa.“ Fyrirlesturinn fer fram í stofu 229 í Aðalbyggingu HÍ, mánudaginn 10. febrúar kl. 11:40-13:10. Einnig verður hægt að fylgjast með í streymi.
Um fyrirlesarann
Guðrún lauk doktorsprófi við Deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði árið 2023 og starfar nú við skráningu fornbréfa og bréfabóka hjá Árnastofnun. Hún lauk einnig MA prófi frá HÍ og starfaði við Þjóðminjasafn Íslands um árabil, einkum húsasafn og myndasafn, auk þess að hafa starfað við Listasafn Einars Jónssonar og vinna að yfirlitsriti um íslenskar miðaldakirkjur.
Um erindið
Fyrirlesturinn er að hluta til almenn kynning á doktorsritgerðinni, „Images in seals of chapters and bishops in the medieval dioceses of Norway and Iceland“ sem varin var við Hugvísindasvið Háskóla Íslands haustið 2023. Í henni er fjallað um myndefnið í tveimur tegundum kirkulegra miðaldainnsigla í norsku og íslensku biskupsdæmum miðalda. Annars vegar innsigli dómklerka og klaustursamfélaga og hins vegar einstaklinga, þ.e. biskupa. Samfélög dómklerka og klaustrafólks nefndust kapítuli og af því er orðið kapítulainnsigli dregið. Orðið kapítuli á einnig við um samkomustaðinn sjálfan, rýmið þar sem starfsemin fór fram. Tímarammi verksins er frá elstu varðveislu sem nær aftur á miðja 13. öld og fram til siðbreytingar. Þar er miðað við ártal kirkjuordinazíu Kristjáns III frá 1537 að teknu tilliti til breytileika eftir biskupsdæmum. Innsigli þessara hópa eru ólík í eðli sínu og því nauðsynlegt að fjalla um þau í aðskildum köflum. Kapítulainnsiglin höfðu langan líftíma, sum hver voru notuð öldum saman en aftur á móti voru biskupsinnsigli bundin við embættistíð hvers þeirra sem gat verið nokkuð breytileg. Stíll biskupsinnsigla breyttist því hraðar en kapítulainnsigla og veita þau mikla innsýn í embættaveitingar á þessum tíma. Í fyrirlestrinum verður sérstök áhersla lögð á að kynna þróun biskusinnsiglanna.
