Header Paragraph

Hvað er í deiglunni? Friður, fuglar, loftslagsréttlæti

Image

Hvað er í deiglunni? Haustmálþing Guðfræðistofnunar Háskóla Íslands verður haldið 19. október kl. 13-15 í stofu A229 í Aðalbyggingu. Á þinginu kynna starfandi fræðimenn við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild HÍ rannsóknir sínar. Málstofustjóri er Dr. Hjalti Hugason. Hægt verður að fylgjast með málþinginu á zoom fjarfundi hér.

Dagskrá:

  • 13:00-13:05 Upphaf málþings
  • 13:05-13:25 Rúnar Már Þorsteinsson: „Hversu oft galaði haninn? Fuglar í Nýja testamentinu“
  • 13:25-13:45 Arnfríður Guðmundsdóttir: „Hjálpræði fyrir hverja?“
  • Hlé
  • 13:50-14:10 Sigríður Guðmarsdóttir: „Græna Atómstöðin: Hagnýt guðfræði í ljósi loftslagsbreytinga“
  • 14:10-14:30 Sólveig Anna Bóasdóttir: „Sæl(ir) eru friðflytjendur! Friður sem meginmál kristins boðskapar“
  • 14:30-15:00     Umræður

Útdrættir úr erindum:

Rúnar Már Þorsteinsson: „Hversu oft galaði haninn? Fuglar í Nýja testamentinu“ 

Fuglar eru nokkuð áberandi í Biblíunni. Það á einkum við um rit Gamla testamentisins, en í þessu erindi verður kastljósinu beint að Nýja testamentinu. Þar er að finna ýmsar almennar tilvísanir til fugla, en auk þess eru fimm fuglategundir nefndar sérstaklega. Einungis ein þeirra hefur aldrei verpt á Íslandi. Í erindinu verður farið yfir hugtök, lýsingar og samhengi þessara tegunda í Nýja testamentinu og frumkristni, auk þess sem sérstakri athygli verður beint að umdeildum einstaklingi sem líklega má teljast frægasti fugl Biblíunnar.

Arnfríður Guðmundsdóttir: „Hjálpræði fyrir hverja?“

Í kristinni trúarhefð er kastljósinu beint fyrst og fremst að mennskum hluta sköpunarinnar. Gagnrýni á þessa mannmiðlægu nálgun færist í aukana, ekki síst vegna manngerðrar loftslagskrísu sem ógnar öllu lífi á jörðinni. Í þessu erindi verður rýnt í þessa gagnrýni og þá sérstaklega kristsfræðilegar spurningar varðandi merkingu Krists-atburðarins fyrir allt sköpunarverkið. Spurt verður m.a. hvort líf, dauði og upprisa Krists hafi bara þýðingu fyrir mannfólkið. Er hjálpræðisverkið kannski bara fyrir okkur sem höfum kallað okkur homo sapiens, eða hinn viti borni maður? 

Sigríður Guðmarsdóttir, „Græna Atómstöðin: Hagnýt guðfræði í ljósi loftslagsbreytinga“

Hvernig hafa hinar nýju aðstæður loftslagsbreytinga á norðurslóð áhrif á hagnýta guðfræði? Hin hagnýti þáttur guðfræðinnar snýr hvort tveggja að rannsóknum á kristnum praxis í heild (hagnýt guðfræði) sem og að sjónum sé sérstaklega beitt að guðfræðilegri ígrundun hinnar vígðu þjónustu (pastoralguðfræði). Til að leita svara við spurningunni leitar höfundur í smiðju Halldórs Kiljans Laxness í Atómstöðinni, hugleiðir hina grænu þrenndarmynd um brekkuna, sveitina og lífið og dregur þaðan niðurstöður um græna köllunarguðfræði fyrir þjónustu og praxis á kristnum forsendum.

Sólveig Anna Bóasdóttir: „Sæl(ir) eru friðflytjendur! Friður sem meginmál kristins boðskapar“

Mörg okkar sakna þess að heyra talað um friðarstarf kristinna kirkna nú þegar stríð geisar í Evrópu. Þetta starf á sér sannarlega stað enda friður grundvallargildi í kristinni trú eins og öðrum trúarhefðum. Lútherska heimssambandið og Heimsráð kirkna leggja áherslu á réttlátan frið og útskýra forsendur hans. Hvernig getum við aukið friðarumræðuna, stutt við friðarmenningu – m.ö.o. gerst „friðariðkendur“?

Image