Háskólinn og Þjóðkirkjan endurnýja samstarfssamning
Samstarfssamningur Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar Háskóla Íslands og Þjóðkirkjunnar um starfsmenntun og starfsþjálfun hefur verið endurnýjaður. Samkvæmt samningnum á að efla samstarfið enn frekar svo að það nýtist sem best prestum, djáknum og öðru starfsfólki Þjóðkirkjunnar. Starfsréttindanám presta (mag.theol.) hefur verið kennt við Háskóla Íslands frá stofnun hans árið 1911 en kennsla í djáknafræðum hófst haustið 1993.
Við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild er hægt að leggja stund á guðfræði og trúarbragðafræði (aukagrein) í grunnnnámi og guðfræði, djáknafræði og mag.theol. í meistaranámi. Auk þess er hægt að leggja stund á doktorsnám í guðfræði við deildina.
Það voru Guðrún Karls Helgudóttir biskup og Jón Atli Benediktsson háskólarektor sem skrifuðu undir samninginn en viðstaddar undirritun voru Arnfríður Guðmundsdóttir, forseti Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar, og Ólöf Garðarsdóttir, forseti Hugvísindasviðs.
Ólöf Garðarsdóttir, forseti Hugvísindasviðs, Jón Atli Benediktsson háskólarektor, Guðrún Karls Helgudóttir biskup og Arnfríður Guðmundsdóttir, forseti Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar.