Header Paragraph

Draga lærdóm af sannleiks- og sáttanefndum

Image
Sigríður Guðmarsdóttir, ritstjóri bókarinnar Trading Justice for Peace?

Út er komin bókin Trading Justice for Peace? í ritstjórn Sigríðar Guðmundsdóttur, dósents við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Bókin er hluti af rannsóknarverkefni VID háskólans í Noregi sem fjallar um sannleiks- og sáttanefndir í Suður-Afríku, Kanada og Norðurlöndunum. Rannsókninni var ýtt úr vör þegar ákveðið var að stofna sannleiks- og sáttanefnd í Noregi til að fjalla um Sama, Kveni og Skógfinna. Samskonar nefnd hefur verið stofnuð í Finnlandi og undirbúningur er hafinn að slíkri nefnd í Svíþjóð. Í bókinni fjalla fræðimenn um sannleiks- og sáttanefndir sem störfuðu í Kanada og Suður-Afríku og reyna að draga lærdóm af þeim, þ.á m. hvort nefndirnar kaupi sátt og frið á kostnað réttlætis. Bókin er þverfagleg og þar koma saman sagnfræðingar, guðfræðingar, lögfræðingar, skjalastjórnendur og fólk frá fleiri fræðigreinum.  

Bókin er gefin út hjá AOSIS og er í opnum aðgangi. Aðrir ritstjórar eru Demaine Solomons hjá University of Western Cape, Höfðaborg og Paulette Regan í Vancouver.

Sigríður Guðmarsdóttir var ráðin lektor í kennimannlegri guðfræði við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands í ársbyrjun 2021. Hún lauk doktorsprófi í guðfræði árið 2007 frá Drew University í Bandaríkjunum en áður hafði hún lokið M.Phil í guðfræði frá sama skóla. Frá árinu 2018 starfaði hún sem dósent við VID Tromsö, Kirkelig utdanningssenter nord í Noregi. Rannsóknir Sigríðar eru á sviði samstæðilegrar guðfræði, trúarheimspeki og kennimannlegrar guðfræði. Nýjustu guðfræðirannsóknir hennar tengjast kynjafræði, norðurslóðamálum og loftslagsmálum. Þá er hún þátttakandi í nýju þverfræðilegu rannsóknarverkefni Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar Háskóla Íslands um mannréttindi, fjölmenningu, trú og loftslagsvá.

Image
Sigríður Guðmarsdóttir, ritstjóri bókarinnar Trading Justice for Peace?