Stefna

Stefna Guðfræðistofnunar HÍ 2013–2017

Samkvæmt 2. gr. í reglum Guðfræðistofnunar HÍ er tóku gildi 1. okt. 2010 er hlutverk hennar:

a. að styðja rannsóknir félaga (sbr. 4.gr. reglnanna) í guðfræði og trúarbragðafræði, ein eða í samvinnu við aðra;

b. að gangast fyrir útgáfu, ráðstefnum, fyrirlestrum og hvers kyns annarri starfsemi sem stutt gæti rannsóknir og kennslu í guðfræði og trúarbragðafræði og eflt tengsl við alþjóðlegt háskólasamfélag sem og við íslenskt þjóðlíf;

c. að veita  rannsóknanemum, nýdoktorum og gestafræðimönnum  aðstöðu og tækifæri  til rannsóknastarfa eftir því sem kostur er og efla um leið tengsl rannsókna og kennslu. Stjórn Guðfræðistofnunar getur ákveðið, að fengnu samþykki félagafundar eða ársfundar og í samráði við stjórn  Hugvísindastofnunar (sbr. 4. gr. reglna  um Hugvísindastofnun Háskóla Íslands), að koma á fót rannsóknastofum sem sinna tilteknum rannsóknaverkefnum, rannsóknasviði eða samstarfi sem  fellur  að hlutverki Guðfræðistofnunar.

Þetta hlutverk hyggst Guðfræðistofnun rækja með eftirfarandi hætti:

Útgáfa: Guðfræðistofnun gefur út Ritröð Guðfræðistofnunar (Studia theologica islandica) sem koma skal út tvisvar á ári. Ritröðin skal vera ritrýndur birtingarvettvangur fyrir félaga stofnunarinnar. Auk þess skulu birtar greinar eftir aðra fræðimenn innlenda og erlenda eftir því sem mögulegt er.

Auk Ritraðarinnar getur Guðfræðistofnun gefið út önnur rit ein eða í samstarfi við aðra. 

Þá er stjórn stofnunarinnar heimilt að veita einstökum félögum styrk til útgáfu ritrýndra fræðirita.  Fjárhæð styrksins fer eftir umfangi rits og fjárhag stofnunarinnar hverju sinni. Getið skal um styrkveitinguna í inngangi rits eða á annan hátt í samráði við stjórn. Að öðru leyti skal stjórn og styrkþegi gera með sér samkomulag um hvort Guðfræðistofnun standi sem útgefandi eða meðútgefandi rits. Guðfræðistofnun tekur hvorki á sig vinnuframlag né fjárhagslegar skuldbindingar umfram það sem fram kemur við stykveitingu.

Ráðstefnur og málþing: Guðfræðistofnun skal á hverju haustmisseri halda ráðstefnu er hafi það að markmiði að kynna rannsóknir félaganna. Á ráðstefnum þessum skal þeim gefinn kostur á að kynna rannsóknir sem eru á undirbúningsstigi, standa yfir eða hefur verið lokið frá því árið áður. Stefnt er að því að ráðstefnur þessar verði í nóvember. Kostað skal kapps um að auglýsa ráðstefnurnar vel og bjóða til almennrar þátttöku.

Guðfræðistofnun hvetur félaga sína til að taka þátt í Hugvísindaþingi sem haldið er á vormisseri ár hvert.

Auk þessa getur stjórn stofnunarinnar eða einstakir félagar hennar í samvinnu við stjórnina gengist fyrir ráðstefnum og málþingum í hennar nafni. Slík málþing er mögulegt að halda í samstarfi við utanaðkomandi aðila. Um kostnaðarþátttöku í einstökum tilvikum fer samkvæmt ákvörðunum stjórnar.

Guðfræðistofnun getur staðið fyrir eða annast norrænar og alþjóðlegar ráðstefnur bæði að frumkvæði stjórnar og einstakra félaga stofnunarinnar ein eða í samvinnu við innlenda og/eða erlendra aðila.

Standi einstakir félagar fyrir fjölþjóðlegum ráðstefnum á fræðasviði sínu er stjórninni heimilt að styrkja ráðstefnuna. Fjárhæð styrksins fer eftir umfangi ráðstefnu og fjárhag stofnunarinnar hverju sinni. Getið skal um styrkveitinguna í samráði við stjórn. Að öðru leyti skal stjórn og styrkþegi gera með sér samkomulag um hvort Guðfræðistofnun standi sem aðstandandi ráðstefnunnar. Guðfræðistofnun tekur hvorki á sig vinnuframlag né fjárhagslegar skuldbindingar umfram það sem fram kemur við stykveitingu.      

Fyrirlestrar: Guðfræðistofnun mun halda uppi reglulegu fyrirlestrahaldi. Þetta mun hún kosta kapps um að gera með a.m.k. mánaðarlegum málstofum á starfstíma HÍ. Á málstofum skal félögum stofnunarinnar og doktorsnemum við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild gefast kostur á að fjalla um rannsóknir sínar eða fræðasvið. Þá skal leitað til innlendra og erlendra fræðimanna að flytja fyrirlestra á málstofum eftir því sem kostur er.  Jafnframt skal kostað kapps um að efna til málstofa um efni sem ofarlega eru á baugi í íslensku samfélagi og kirkju og snerta fræðasvið stofnunarinnar.

Þá mun stofnunin efna til almennra háskólafyrirlestra þar sem félögum stofnunarinnar sem og öðrum innlendum og erlendum fræðimönnum er boðið að fjalla um viðfangsefni á fræðasviði stofnunarinnar.

Málstofur og fyrirlestrar skulu vera vel kynnt og öllum opin.  

Stuðningur við rannsóknarnema: Guðfræðistofnun mun leitast við að styrkja doktorsnema á lokastigi náms síns, að hámarki þrír mánuðir. Styrkfjárhæð er háð fjárhag stofnunarinnar hverju sinni og er upphæðin fyrir hvern mánuð ákvörðuð með hliðsjón af öðrum styrkjum sem doktorsnemum standa til boða. Að öllu jöfnu greiðast þessi styrkir úr Starfssjóði Guðfræðistofnunar Háskóla Íslands.

Við styrkveitingu skal við það miðað að doktorsnemi hafi fengið úrskurð um að ritgerð sé hæf til varnar og skal miða að því að gera doktorsefni kleift að bregðast við lokaathugasemdum doktorsnefndar og andmælenda.

Námskeið: Guðfræðistofnun getur ein og í samvinnu við aðra gengist fyrir símenntunarnámskeiðum fyrir þau sem lokið hafa námi á vegum deildarinnar. Þá getur stofnunin haldið námskeið fyrir almenning á fræðasviði sínu.

Sérstaklega skal leitast við að stunda fræðslu fyrir almenning um íslenskan trúarveruleika og trúarhefð, stöðu trúar og kirkju í íslensku samfélagi sem og málefni er ofarlega kunna að vera á baugi í íslensku samfélagi og snerta fræðasvið stofnunarinnar.

2017.is: Guðfræðistofnun hýsir verkefnið Siðaskipti í sögu og samtíðÞverfaglegt rannsóknarverkefni um áhrif siðaskiptanna á kirkju, samfélag og menningu í 500 ár —2017.is. Um verkefnið að öðru leyti fer samkvæmt samþykktum stofnfundar þess 6. des. 2011.