Header Paragraph

Fríkirkjusöfnuðir, Klemensarbréf og biskupsembættið í Ritröð Guðfræðistofnunar

Image

Hausthefti Ritraðar Guðfræðistofnunar er komið út og þar kennir ýmissa grasa. Í fyrstu grein heftisins heldur Hjalti Hugason áfram umfjöllun sinni um lútherska fríkirkjusöfnuði undir meginyfirskriftinni „Kirkjuleg lýðræðishreyfing“. Á grundvelli ítarlegrar greiningar á frumheimildum sem litla athygli hafa fengið fram að þessu varpar Hjalti ljósi á vanrannsakað tímabil í sögu íslensks trúarlífs. Í þessari annarri grein beinir Hjalti sjónum sínum að stöðu þeirra fríkirkjusafnaða sem fjallað var um í fyrstu grein greinaflokksins gagnvart þjóðkirkjunni og ríkisvaldinu. Hann færir fyrir því rök að á mótunarskeiði trúfrelsis í landinu, þ.e. fyrir árið 1915 þegar trúfrelsi var fest í sessi með stjórnarskrárbreytingum, hafi í raun ekki verið um eiginlegt trúfrelsi einstaklinga að ræða. Frekar hafi verið um að ræða trúarlegt félagafrelsi.

Önnur greinin er eftir Rúnar M. Þorsteinsson og ber titilinn „Fyrra Klemensarbréf og siðfræðileg arfleifð Páls í Róm“. Lítið hefur verið fjallað fræðilega um Fyrra Klemensarbréf á íslensku, eins og reyndar önnur rit sem flokkuð hafa verið til hinna svokölluðu „Postullegu feðra“, og því er fengur að grein Rúnars. Hann tekur fyrir ýmis grunnatriði varðandi ritun bréfsins en fjallar sérstaklega um félagslegan bakgrunn höfundarins og þær siðfræðilegu hugmyndir sem í ritinu er að finna. Færð eru fyrir því rök að siðfræðilegar áherslur bréfsins séu undir áhrifum frá skrifum Páls postula, einkum úr Fyrra Korintubréfi og Rómverja-bréfinu.

Í grein sinni „Stjórnsýsla án hliðstæðu: Valdsvið biskupsembættisins 2011–2021“ fjallar Skúli Sigurður Ólafsson um stjórnsýslu þjóðkirkjunnar á tímabilinu 2011–2021 með sér-stakri áherslu á embætti biskupsins. Í ljósi skrifa guðfræðinga um þjóðkirkjuhugmyndina og á grundvelli kenninga og hugtaka úr stjórnsýslufræðum, greinir Skúli heimildir af fjölbreytilegum toga sem tengjast þeirri stjórnsýslulegu þróun sem átti sér stað innan þjóðkirkjunnar á tímabilinu. Á grundvelli þeirrar greiningar færir hann fyrir því rök að útfærsla biskups-embættisins í stjórnskipan þjóðkirkjunnar hafi á þessu tímabili ekki samræmst grunnhugmyndum um lýðræðislegt skipulag. Valdsvið embættisins hafi verið of mikið að umfangi því að biskup hafi á þeim tíma haft bæði framkvæmdavald og átt þátt í að hafa eftirlit með því sama valdi. Grein Skúla er áhugaverð samtímagreining og mikilvægt framlag í fræðilega umfjöllun um kirkjusögu íslensks nútíma.

Þá er í þessu hefti að finna tvo ritdóma. Annars vegar tekur Sólveig Anna Bóasdóttir ritið When God Was a Bird: Christianity, Animism, and the Re-Enchantment of the World eftir Mark I. Wallace frá 2019 til umfjöllunar. Í bókinni útfærir höfundur hugmyndir sínar um tengsl kristinnar trúar og animisma. Hins vegar fjallar Haraldur Hreinsson um bókina Religions-wissenschaft und Theologie: Disziplinen diskursiv denken eftir Christiane Nagel sem kom út fyrr á þessu ári en þar greinir höfundurinn tengslin milli guðfræði og trúarbragðafræði.

Haraldur Hreinsson, lektor við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands hefur tekið við ritstjórn ritraðarinnar af Arnfríði Guðmundsdóttur prófessor sem annast hefur útgáfuna undangengin fimm ár. Að auki situr Sólveig Anna Bóasdóttir prófessor í ritstjórn. Ritrröð Guðfræðistofnunar er gefin út í rafrænu formi og má nálgast hér.