Háskóli Íslands

Doktorsnemar

Hér er fyrir neðan má sjá umfjöllun um nokkur doktorsverkefni í Guðfræði- og trúarbragðafræðideild. Neðangreindir nemendur fluttu fyrirlestra á meistara- og doktorsnemadegi Hugvísindasviðs 2009, 2010 og 2011.

María Ágústsdóttir, doktorsnemi í samkirkjulegri guðfræði
Viðræður og veruleiki: Staða kirkjumála í ljósi Strassborgarráðstefnu 2011
Þegar litið er um öxl til þróunar samkirkjumála sl. 50 ár er ljóst að margt hefur breyst. Heimurinn er annar, t.d. hvað varðar stjórnmál, viðskipti og stöðu kristinna kirkna. Veraldarvefur og hnattvæðing hafa gjörbreytt hinu félagslega landslagi. Á sviði samkirkjumála hafa átt sér stað miklar formlegar viðræður frá 7. áratug liðinnar aldar, ekki síst eftir hugarfarsbreytingu innan rómversk-kaþólsku kirkjunnar í kjölfar Vatikan II þingsins. Nú er spurt hverju þær viðræður hafi áorkað. Hafa guðfræðilegar samþykktir fagmanna skilað sér inn í starf kirkna og líf kristins fólks um víða veröld? Skipta aðrir þættir einnig máli varðandi aukinn skilning á milli fólks? Fólk sem verið hefur leiðandi í samkirkjulegu starfi á undanförnum áratugum kom saman á ráðstefnu í Strassborg í júlí 2011 til að ræða slíkar spurningar og í erindi sínu gefur María innsýn í þá umræðu og eigin ályktanir út frá henni.

Steinunn A. Björnsdóttir, doktorsnemi í guðfræði
Borgarkirkja verður til
Þessi rannsókn er hluti af stærri doktorsrannsókn sem skoðar áhrif samfélagsbreytinga á kirkjuna með sérstakri áherslu á breytingar á starfi prestsins. Á níunda áratug síðustu aldar urðu breytingar á skattalögum til þess að gjörbreyta starfsumhverfi kirkjunnar, einkum í þéttbýli.
Ráðstöfunarfé safnaða jókst og var forsenda þess að hægt væri að byggja safnaðarheimili og ráða starfsfólk í sérhæfð störf. Í kynningunni eru færð rök fyrir því að þetta hafi skipt sköpum í breytingu kirkjustarfsins frá sveitakirkju í borg yfir í myndun borgarkirkju.

Ingibjörg María Gísladóttir, doktorsnemi í guðfræðilegri siðfræði
Kynverundarréttindi og kristin kynlífssiðfræði
Árið 1999 settu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO), Ameríska heilbrigðismálastofnunin (PAHO) og Alheimssamtök um kynheilbrigði (WAS) fram yfirlýsingu um kynverundarréttindi. Í inngangi yfirlýsingarinnar er ítrekað að þau séu hluti grundvallar mannréttinda. Kynverundarréttindin hafa frá upphafi mætt mótspyrnu frá trúarbrögðunum þar sem þau þykja brjóta í bága við mannskilning þeirra. Í doktorsverkefni mínum mun ég beina sjónum að kristinni kynlífssiðfræði. Markmið þitt er að leggja til ákveðna nálgun á sviði kristinnar kynlífssiðfræði sem gengur út frá tengslum kynverundar og mannréttinda. Útgangspunktur hennar verður kynverundarréttindi allra einstaklinga óháð kyni, kyngervi, kynhneigð, kynvitund og hjúskaparstöðu.

Árni Svanur Daníelsson.
Hjálpræðisbrot í bíó.
Í erindinu verður rætt um hjálpræðisstef í kvikmyndunum Levity, In America og Tsotsi. Kynnt verður módel sem má nota við greiningu og flokkun slíkra stefja í kvikmyndum. Þessar þrjár kvikmyndir geyma ólíkar hjálpræðissögur sem gefa innsýn í það hvernig hægt er að fjalla um hjálpræði í kvikmyndum. Um leið fjalla þær um spurningar um eðli syndar og fórnar og hjálpræðis.

Ásdís Emilsdóttir Petersen.
Leiðtogahlutverkið í kirkjunni í ljósi nútíma stjórnunarfræða.
Helsti hvati að doktorsrannsókn minni um Leiðtogahlutverkið í kirkjunni í ljósi nútíma stjórnunarfræða er það síbreytilega umhverfi sem kirkjan býr við. Á tímum hraða, fjölmenningar og öflugs upplýsingastreymis starfar kirkjan í ögrandi og gagnrýnu umhverfi sem gerir kröfur til leiðtoga hennar.
Markmið verkefnisins er að skilgreina prestshlutverkið, öðlast vitneskju um árangursríka eiginleika í fari íslenskra presta og bera þá saman við sjónarhorn praktískrar guðfræði og nútíma stjórnunarkenninga um leiðtoga og árangur. Lögð er áhersla á að skoða tengsl á milli styrkleika í starfi og árangurs. Með því að mæla og meta hæfnisþætti sem leiða til árangurs er stefnt að því að leggja til matstæki sem hafa má til hliðsjónar við starfsþjálfun innan kirkjunnar.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is